31.8.05

Róló nostralgía

Í dag eru mikil tímamót í sögu Reykjavíkur. Gæsluvellum borgarinnar var lokað fyrir 40 mínútum fyrir fullt og allt. Ég er rólóstelpa og á eftir að sakna þessara valla þó sem stendur hafi ég ekki notað þá í nokkur ár.

Ein af mínum fyrstu bernskuminningum tengjast einmitt Ásuróló sem var á Ásvallargötunni hér í borg. Þar var ég fastagestur meðan ég hafði aldur til. Umsjónarkona hét Ása eins og ég, hún var í miklu uppáhaldi hjá mér.

Eitt árið átti að dekra við mig og setja mig á leikskóla Drafnarborg sem þótti mikill munaður í þá daga. Þar var eldri bróðir minn, frændsystkini og fleiri krakkar sem ég þekkti vel. Fóstran þar hét Bryndís og var frábær manneskja og sérstök typa, hjólaði allra sinna ferða og var yndisleg í alla staði. Hún setti mikinn svip á vesturbæinn og gerir kannski enn (veit ekki hvort hún er enn á lífi).

Ég var sko ekki til í það þrátt fyrir þessa frábæru konu og allt fína dótið og húsið. Ó nei ég ætlaði að vera á Ásuróló. En ég fékk ekki að ráða (eitthvað sem ég þoli ekki!!!). Ég grét í viku á Drafnarborg ekki bara þegar farið var með mig heldur allan daginn alla vikuna. Mamma og Bryndís voru nú ekkert á því að láta mig stjórna þessu 3 ára gamla. En jú ég hafði betur :-) Þegar mér hafði tekist að öskra í viku gáfust þessar mætu konur upp fyrir óargadýrinu og mér var skutlað á Ásuróló.

Þar undi ég hag mínum vel fram að skólaaldri. Ég á mjög skemmtilegar minningar þaðan. Á veturnar var alltaf snjór og mamma fór með strákana bræður mína á Drafnarborg og svo með mig á skíðasleða á Ásuróló. Mér finnst ég alltaf hafa verið með röndóttu skotthúfuna mína, rauð og hvít með löngu skotti og dúsk á endanum. Á sumrin var ég svo alltaf í stuttbuxum enda alltaf sól á sumrin í vesturbænum kringum 1960.

Jú jú Villi bróðir sem er næstur mér í systkinahópnum reyndi sama trix en hafði ekki sama öskurúthald og ég svo hann reyndi að strjúka. En það tókst ekki betur en svo að þegar hann var á leið yfir bárujárnsgirðinguna sem var á eina hlið á leikvellinum þá festist hann á girðingunni og fékk stóra skurði í báða lófana. En ég ein af hópnum fékk að vera á Ásuróló.

Það var ekki bara Villi sem var hrakfallabálkur á þessum árum því ég gekk iðulega fyrir rólurnar sem voru með trésessum og þau voru ófá götin sem ég fékk á hausinn svo Ása þurfti að fara með mig heim og mamma uppá slysó. Það var nú ekki sími á róló í þá daga og ekki bíll á heimilinu þannig að maður fékk að fara í leigubíl ;-)

Öryggismálin voru nú með öðrum hætti í þá daga. Skóflurnar voru líka úr járni og eitt skiftið fékk ég eina slíka í höfuðið eftir deilur við strákana á róló. Skarst illa og röndótta húfan skemmdist. Ég man enn hversu hrædd Ása varð konan sem aldrei haggaðist það blæddi svolítið hressilega og ég grét aðallega húfuna.

Svo liðu árin og ég var mikil barnapía alltaf að passa einhverja grislinga þá stakk maður sér oft inná róló með þá og átti notarlegar stundir.

Seinna eignaðist ég tvö börn þá notaði ég gæsluvellina eins og farið var að kalla þá mikið. Einn á Tunguveginum og svo seinna við Asparfell. Þann völl notaði ég mikið, þannig háttaði til á þeim árum að ég gerðist dagmamma og starfaði við það í ein 11 ár eða meðan ég var að koma mínum börnum á legg.

Það er ég viss um að ekki hefði ég haft úthaldi í öll þau skemmtilegu ár nema fyrir tilstilli róló og þeirra yndislegu kvenna sem þar störfuðu. Þetta er mikið starf fullt af ábyrgð og gleði en aðbúnaður og laun starfsmannanna skammarleg. En alltaf voru þar frábærar konur sem tóku við börnunum af sömu hlýju og Ása gerði á Ásvallargötunni á árunum 1959-1963.

Nú eru breyttir tímar og búið að loka. Blessuð sé minning rólóanna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þetta er skítt með rólóvellina og leiðinlegt að horfa á eftir þeim. Greinilegt samt af þessarri leikskóla/rólósögu þinni að þú hefur verið óhemja frá blautu barnsbeini :-)
Kv. Dóttirin

Nafnlaus sagði...

Ég er alveg sammála þér Ása! Það er leiðinlegt að horfa á eftir þeim Ég var á róló þegar ég var lítil og svo var ég að vinna á róló í fjögur ár og það var alveg svakalega gaman! Börnin skemmtu sér alveg konunglega við allskonar útileiki og þar var mikið fjör!

Kveðja Arndís Hrund.